Íslenski hesturinn

Saga íslenska hestsins
Talið er að íslenski hesturinn hafi komið hingað til lands á landnámstímanum og hefur hann aðlagast náttúru og veðurfari á Íslandi

Hrossin sem landnámsmenn komu með sér voru af ýmsum uppruna þó aðallega germönskum. Heimildum ber ekki saman um hver uppruni íslenska hestsins er en talið er að hann eigi sameiginlegan uppruna með norska lynghestinum og eigi þau kyn ættir sínar að rekja til taminna hrossa í Mongólíu. Einnig kemur fram í heimildum að íslenski hesturinn sé skyldur „equus caballus scandinavicus“ hrossakyni sem var upp í Norður-Evrópu á meðan aðrir telja hann náskyldan breska smáhestinum Exmoor. Þrátt fyrir að íslenski hesturinn hafi verið að blönduðu kyni til að byrja hefur hann þróast síðan á 11. öld án blöndunar við aðra hestastofna og hefur hann því haldið ýmsum eiginleikum sem hafa tapast hjá öðrum hestakynum. Landnámsmenn komu með búfénað með sér frá Evrópu þar á meðal var úrval gæðinga.Fyrr á tíðum var íslenski hesturinn kallaður „þarfasti þjóninn“. Íslenski hesturinn sá meðal annars um að sækja ljósmóðurina og dró kistuna til kirkju og má því segja að hann hafi fylgt manninum frá vöggu til grafar. En með tímanum og tilkomu bílsins, árið 1904, hefur hlutverk íslenska hestsins breyst úr því að vera burðardýr og ómissandi atvinnu- og samgöngutæki í að vera tómstundagaman en gegnir hann þó enn mikilvægu hlutverki í göngum og leitum á haustin. Sama ár og bílinn kom var fyrsta hrossaræktarfélagið á Íslandi stofnað.

Hrossarækt á auknum vinsældum að fagna í dag og er að finna mörg stór hrossaræktarbú um landið ásamt því að fjöldi einstaklinga ræktar hross í smærri stíl. Íslenski hesturinn var fluttur úr landi á fyrri hluta síðustu aldar sem vinnuhestur. Upp úr 1950 hófst útflutningur á reiðhestum.

Íslenski hesturinn
Hestakyn sem er skylt norska lynghestinum og er af mongólskum uppruna. Víkingar fluttu með sér meðal annars skandinavíska hesta þegar þeir settust að á Íslandi fyrir meira en 1000 árum síðan. Íslenski hesturinn er ekki hár í loftinu miðað við mörg önnur hestakyn en aftur á móti er hann óvenju sterkbyggður, heilsuhraustur, þrautseigur og veðurþolinn. Íslenski hesturinn státar af jafnaðargeði og vingjarnlegu eðlisfari og fyrir það hefur hann aflað sér mikillar aðdáunar. Einnig er hann sterkari á taugum heldur en mörg stærri hestakyn [heimild vantar]. Aftur á móti getur hann verið þrjóskari og óþekkari en aðrar hestategundir, enda ræktaður með það í huga að selflytja fólk, sem kann ekki á hesta og verður því að vita sjálfur betur en knapinn hvað rétt sé og hvert ferðinni sé heitið. Algengt er að íslenski hross nái 25 til 27 vetra aldri án heilsubrests, en þau getur orðið yfir 30 vetra. Hestar eru félagsverur og vilja vera á beit með öðrum hestum. Íslenskir hestar gera ekki miklar kröfur til fóðurs eða húsaskjóls. Innflutningur hesta til landsins er bannaður vegna sóttvarna og hefur íslenski hesturinn verið einangraður í langan tíma og þróast frá landnámi Íslands.

 

Gangtegundir
Íslenski hesturinn er þekktur fyrir sínar fimm ólíku gangtegundir; fet, brokk, stökk, tölt og skeið. Tölt, sem er fjórtakta hliðarhreyfing, er ekki einstakt fyrir íslenska hestinn. Töltið finnst í nokkrum hestakynjum í Norður-Ameríku, Suður-Ameríku og í Asíu. Það sem hins vegar gefur íslenska hestinum sérstöðu, er að enginn annar hestur er sýndur á fimm gangtegundum í keppni og sýningum.

Gangtegundirnar eru ekki eðlislægar öllum hestum og er þeim skipt upp í þrjá flokka, alhliða hesta, klárhesta með tölti og klárhesta. Alhliða hestar eru með allar fimm gangtegundirnar. Klárhestar með tölti eru ekki með skeið en hafa allar hinar gangtegundirnar. Klárhestar geta svo aftur fetað, stokkið og brokkað eins og önnur hestakyn, en bjóða ekki upp á tölt og skeið. Hreinir klárhestar eru sjaldgæfir að verða. Yfirleitt er ein gangtegund ríkjandi hjá íslenska hestinum en til eru hestar sem eru jafnvígir á allar gangtegundir.

Litir

Íslenski hesturinn hefur yfir 40 grunnliti og hundrað litaafbrigði frá leirljósu að jörpu, frá muskóttu til
móvindótts. Algengustu grunnlitir íslenska hestsins eru tveir, rauður og brúnn og er sá rauði algengastur, en í mismunandi blæbrigðum. Mikill fjölbreytileiki í lit er einnig í faxi og tagli íslenska hestsins og ekki er alltaf sami litur á faxi og tagli hestsins. Litur á fótum hestsins getur líka verið breytilegur.

Í hrossum almennt eru 15 vel skilgreind litasæti sem stjórna litaerfðum hestsins og er íslenski hesturinn talinn hafa að minnsta kosti 11 þeirra, sem eru eftirfarandi:

  • A: Erfðavísir sem ákveður hvort hrossið verður brúnt eða rautt. Þetta sæti vísar einnig í jarpt og ákveður hvort jarpur litur komi fram eða ekki.
  • B: Ákveður hvort húðin framleiði litarefni fyrir svart eða mórautt. Ekki er vitað um mórauð, íslensk hross svo það er gert ráð fyrir að öll íslensk hross hafi hér svart í sætinu.
  • C: Ræður hvort litastyrkur í hárum hrossins verður fullur eða deyfður. Leirlitirnir leirljóst, moldótt, muskótt og fölt (albínó) verða til vegna þessa erfðavísis.
  • Ch: Er erfðavísir fyrir kampavínslitum og finnst ekki í íslenskum hrossum.
  • Dn: Litasætið Dn stýrir álóttum litum, móálóttu, bleikálóttu og bleiku.
  • E: Þetta sæti ræður því hvort hrossið verði svart eða rautt, ásamt A-sætinu. Þetta skilur því brún hross frá jörpu annars vegar og frá rauðum hins vegar.
  • G: Tekur fram hvort hrossið gráni með aldri. Grá hross eru fædd í einhverjum grunnlit, en grána svo með aldri, og verða fyrir rest alhvít á feldinn.
  • Rn: Rn-sætið eða Roan-sætið tekur fram hvort hrossið verður litförótt eða ekki. Litförótt lýsir sér þannig að hrossið hefur sinn tiltekna grunnlit en verður árstíðabundið ljós því undirhárin eru hvít en vindhárin í grunnlit hestsin.
  • Spl: Er erfðasætið fyrir slettuskjóttan lit. Slettuskjótt hross eru hjálmótt og sokkótt, með hvítar skellur undir kvið, sem geta náð upp á síður og jafnvel upp á bak.
  • To: Tobiano-sætið, eða skjótta sætið ræður hvort hrossið verði skjótt eða ekki. Skjótt hross eru í raun litlaus á þeim skellum sem eru hvítar. Í húðinni á þessum stöðum eru engin litkorn í húðfrumunum.
  • Z: Erfðavísir fyrir vindóttu er í þessu sæti. Svört hross verða móvindótt, jörp hross verða jarpvindótt, móálótt hross verða móálótt vindótt og svo fram eftir götunum, en rauð, leirljós og bleik hross bera þess engin merki þó þau hafi vindóttar erfðir.

Heimildir Wikipedia